Hamarsmenn bíða enn eftir sínum fyrsta sigri í 2. deild karla í knattspyrnu. Hamar tók á móti Reyni S. í kvöld þar sem gestirnir sigruðu 1-2.
Fyrri hálfleikur var markalaus en Reynir komst yfir á 68. mínútu. Þremur mínútum síðar fékk Ingþór Björgvinsson að líta rauða spjaldið þegar hann klappaði föllnum Reynismanni á kollinn en aðstoðardómarinn mat það svo að Ingþór hefði gefið Reynismanninum olnbogaskot.
Manni færri fengu Hvergerðingar annað mark í andlitið á 84. mínútu en varamaðurinn Ragnar Valberg Sigurjónsson náði að klóra í bakkann fyrir Hamar í uppbótartíma. Þeir luku hins vegar leik með níu leikmenn inni á vellinum því áður en yfir lauk fékk Arnþór Ingi Kristinsson sitt annað gula spjald og fékk því að fara á undan félögum sínum í sturtu. Þetta var fjórða rauða spjald Hamars í fjórum leikjum.
Hamar er með eitt stig í 11. sæti deildarinnar og heimsækir Dalvík/Reyni í næstu umferð að níu dögum liðnum.