Mílan tapaði sínum fyrsta leik í 1. deild karla í handbolta í kvöld þegar liðið mætti ÍBV-U á útivelli í Vestmannaeyjum.
Mílan varð fyrir áfalli strax á tíundu mínútu leiksins þegar Atli Kristinsson fékk rauða spjaldið fyrir að brjóta á andstæðingi í hraðaupphlaupi. Mílumenn voru mjög ósáttir við dóminn sem verðskuldaði ekki meira en tveggja mínútna brottvísun.
Atlalausir náði Mílan ekki að komast í forystuna en Eyjamenn leiddu allan tímann og náðu mest fjögurra marka forskoti í fyrri hálfleik, 12-8. Staðan í leikhléi var 19-16.
Það var minna áfall fyrir Míluna þegar Birgir Örn Harðarson, forseti og starfandi þjálfari í leiknum, fékk rauða spjaldið í upphafi síðari hálfleiks. Hann svaraði ósmekklegum hrópum úr stúkunni með því að sýna stuðningsmanni ÍBV-U miðfingurinn. Því miður fyrir forsetann átti atvikið sér stað beint fyrir framan dómara leiksins. „Óheppilegt. Hálfgert stundarbrjálæði,“ viðurkenndi Birgir niðurlútur í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Þrátt fyrir forsetaleysið náði Mílan að minnka muninn á fyrstu tíu mínútum síðari hálfleiks en þá kom aftur góður kafli hjá heimamönnum sem náðu í kjölfarið fimm marka forskoti, 28-23. Mílunni tókst ekki að minnka muninn og lokatölur urðu 37-32.
Sævar Ingi Eiðsson var markahæstur hjá Mílunni með 10 mörk, Andri Hrafn Hallsson skoraði 6, Gunnar Páll Júlíusson og Kristinn Ingólfsson skoruðu báðir 3 mörk, Atli Kristinsson, Magnús Már Magnússon, Bjarki Már Magnússon og Gunnar Ingi Jónsson 2 og þeir Gísli Frank Olgeirsson og Egidijus Mikalonis skoruðu 1 mark hvor.
Ástgeir Sigmarsson varði 7/2 skot í marki Mílunnar og Hermann Guðmundsson 5.
Mílan er nú í 3. sæti deildarinnar með 3 stig að loknum þremur leikjum.