Uppsveitir töpuðu 0-2 gegn Álftanesi í 4. deild karla í knattspyrnu í dag á meðan Árborg gerði góða ferð á Sauðárkrók og sigraði Tindastól 2-3.
Leikur Uppsveita og Álftaness var fyrsti heimaleikur Uppsveita í deildinni í sumar, á glæsilegum Flúðavelli, sem fengið hefur nafnið Probygg-völlurinn í sumar. Fyrri hálfleikur var markalaus en hlutirnir fóru að gerast í seinni hálfleik.
Eftir aðeins tuttugu sekúndur fékk Arnar Einarsson að líta rauða spjaldið þegar hann braut af sér sem aftasti varnarmaður, þannig að Uppsveitir léku manni færri allan seinni hálfleikinn. Á 58. mínútu kom Stephan Briem Álftanesi yfir en Uppsveitavörnin hafði haldið vel fram að því.
Á 84. mínútu var hamagangur í vítateig Uppsveita sem lauk með því að Björn Mikael Karelsson, markvörður Uppsveita, fékk að líta rauða spjaldið og vítaspyrna dæmd. Úr henni skoraði Mariusz Baranowski en George Razvan, sem tók við hönskunum, var reyndar nálægt því að verja spyrnuna. Álftanes hafði því 0-2 sigur, en þetta var fyrsti sigur liðsins í sumar.
Sigurður Óli skoraði eftir 20 sekúndur
Árborg heimsótti Tindastól á Sauðárkróksvöll og þar kom Sigurður Óli Guðjónsson Árborg yfir eftir aðeins 20 sekúndna leik. Tindastóll byrjaði með boltann en Árborg vann hann strax og Kristinn Sölvi Sigurgeirsson renndi boltanum inn á Sigurð Óla sem þrumaði honum upp í þaknetið. Þetta var eina mark fyrri hálfleiks þrátt fyrir fjölda færa Árborgara og staðan var 0-1 í leikhléi.
Jónas Aron Ólafsson jafnaði metin fyrir Tindastól á 56. mínútu en Árborgarar lögðu ekki árar í bát. Jökull Hermannsson kom þeim aftur yfir á 69. mínútu og Kristinn Sölvi jók forskotið með góðu marki á 77. mínútu. Á 90. mínútu fékk Tindastóll svo ódýra vítaspyrnu, eftir að Ísak Leó Guðmundsson braut af sér í teignum, og úr henni skoraði Jóhann Daði Gíslason. Lokatölur á Króknum 2-3 og Árborg endurheimti toppsætið með sigrinum.
Staðan í deildinni er þannig að Árborg er með 13 stig í toppsætinu þegar fimm umferðum er lokið en Uppsveitir eru án stiga á botninum. Stórleikur 6. umferðar er einmitt viðureign Árborgar og Uppsveita á gervigrasinu á Selfossi næstkomandi föstudagskvöld.