Stokkseyringar fengu skell þegar þeir tóku á móti Knattspyrnufélagi Kópavogs í fyrsta leik sínum í 4. deild karla í knattspyrnu í sumar.
Leikurinn byrjaði með látum, Gunnar Flosi Grétarsson fiskaði vítaspyrnu fyrir Stokkseyri á upphafsmínútunum en fyrirliðanum Örvari Hugasyni brást bogalistin á vítapunktinum. KFK skoraði tvívegis í kjölfarið og leiddi 0-2 í leikhléi.
Það var hart barist í seinni hálfleiknum. KFK komst í 0-3 en Örvar minnkaði muninn í 1-3 skömmu síðar. Tæklingarnar flugu og um miðjan seinni hálfleikinn var leikmaður KFK sendur í sturtu með rautt spjald og Vadims Senkovs, leikmaður Stokkseyrar, fór sömu leið, fyrir litlar sakir að því er virtist. Tíu á móti tíu voru gestirnir sterkari á lokakaflanum og bættu við tveimur mörkum. Sanngjarn 1-5 sigur gestanna þegar upp var staðið.