Tvö rauð í Suðurlandsslagnum

Rangæingar stóðu þétt saman í kvöld. Myndin er reyndar úr safni. Ljósmynd/KFR

KFR og Ægir skildu jöfn í stórleik 1. umferðar í D-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu, 1-1 á Hvolsvelli í kvöld.

Reynir Óskarsson kom KFR yfir á 13. mínútu og reyndist það eina mark fyrri hálfleiks. Hart var barist á köflum en staðan var 1-0 í leikhléi.

Á 60. mínútu braut Heiðar Óli Guðmundsson á Pálma Þór Ásbergssyni innan vítateigs KFR. Vítaspyrna dæmd og Magnús Garðarsson dómari mat það svo að um rautt spjald væri að ræða á Heiðar Óla þar sem hann var aftasti varnarmaður.

Emanuel Nikpalj fór á vítapunktinn og jafnaði metin fyrir Ægi.

Gestirnir úr Þorlákshöfn sóttu meira á lokakaflanum en tókst ekki að finna sigurmarkið. Besta færið fékk Goran Potkozarac á lokamínútunum þegar hann slapp einn í gegn og framhjá Bjarka Oddssyni í marki KFR en Potkozarac skaut boltanum framhjá.

Í uppbótartíma var svo Jóhanni Gunnari Böðvarssyni vísað af velli með sitt annað gula spjald þannig að Rangæingar luku leik níu gegn ellefu og náðu að verja stigið.

Fyrri greinÞrír ungir og efnilegir semja við Selfoss
Næsta greinFyrsta íbúðin í Ölduhverfinu afhent