KFR tók á móti toppliði Mídasar í B-riðli 5. deildar karla í knattspyrnu á Hvolsvelli í kvöld. Mídasarmenn höfðu ekki tapað leik fram að þessu í sumar en Rangæingar voru lítið að spá í því og unnu sannfærandi sigur.
Það var hiti í mannskapnum í fyrri hálfleik og bæði lið misstu leikmenn af velli með rautt spjald áður en flautað var til hálfleiks. Aron Birkir Guðmundsson fékk þannig að líta rauða spjaldið í liði KFR.
Rangæingar skoruðu tvisvar í seinni hálfleiknum, Bjarni Þorvaldsson kom þeim yfir á 64. mínútu og Teitur Snær Vignisson lokaði síðan leiknum með góðu marki á 79. mínútu og tryggði KFR 2-0 sigur. Skömmu síðar fékk annar þjálfara Mídasar sitt annað gula spjald og þriðja rauða spjaldið fór á loft.
Þrátt fyrir tapið er Mídas áfram á toppnum með 15 stig en KFR er í 3. sæti með 12 stig.