Kvennalið Hamars lék tvo leiki gegn Þór Akureyri, á Akureyri, um helgina. Þórsarar sigruðu í báðum viðureignunum.
Eftir jafnan 1. leikhluta í gær tóku Þórsarar af skarið í 2. leikhluta og leiddu í hálfleik, 35-23. Heimakonur höfðu undirtökin í seinni hálfleik og sigruðu að lokum 68-45.
Helga Sóley Heiðarsdóttir var stigahæst hjá Hamri með 10 stig, Þórunn Bjarnadóttir skoraði 9 stig, tók 11 fráköst og stal 5 boltum og Álfhildur Þorsteinsdóttir skoraði 9 stig og tók 11 fráköst.
Hamarskonur fóru illa af stað í leiknum í dag og staðan í leikhléi var 46-24. Seinni hálfleikurinn var jafnari, en að lokum skildu 27 stig liðin að, 73-45.
Álfhildur var stigahæst hjá Hamri í dag með 13 stig, Helga Sóley skoraði 9 og tók 8 fráköst, og Bjarney Sif Ægisdóttir og Þórunn Bjarnadóttir skoruðu báðar 8 stig.
Hamar er áfram í 6. sæti deildarinnar með tvö stig, en Þórsarar eru í 4. sæti með 10 stig.