Tvö ungmenni verðlaunuð með æfingaferð erlendis

Golfklúbbur Hveragerðis mun verðlauna tvö ungmenni á hverju ári fyrir ástundun, heiðarleika og góða framkomu á golfvellinum.

Á dögunum voru fyrstu ungmennin valin, þau Guðjón Helgi Auðunsson og Katrín Eik Össurardóttir, en þau hljóta í hvatningarverðlaun viku æfinga- og golfferð til Long Island í New York fylki Bandaríkjanna í júní.

Stefnt á að koma upp ungmennaskiptum við golfklúbba í Bandaríkjunum í nánustu framtíð en með þessu vill stjórn Golfklúbbs Hveragerðis ýta undir þrjú mikilvæg gildi; ástundun, heiðarleika og hegðun.

Þetta kemur fram í grein Páls Sveinssonar, formanns barna- og unglingaráðs GHG, sem birtist á sunnlenska.is í gærkvöldi.

Í dag, þriðjudaginn 15. maí hefjast barna- og unglingaæfingar GHG í Gufudal ofan Hveragerðis. Þjálfari í sumar verður Einar Lyng, PGA menntaður golfkennari.

Á meðan skólar starfa fram í júní verður æft tvisvar í viku – á þriðjudögum og föstudögum en í júníbyrjun munu barnaflokkur æfa þrisvar í viku og unglingaflokkur tvisvar. Æfingatímana og æfingagjöld má finna á heimasíðu GHG.

Byrjendanámskeið hefjast fyrstu vikuna í júní og verður hægt að finna upplýsingar um þau á heimasíðu GHG og Hveragerðisbæjar.

Fyrri greinListasmiðja náttúrunnar á Stokkseyri
Næsta greinStórskemmtileg sýning í Þorlákshöfn