Hamar-Þór vann öruggan sigur á Snæfelli í 1. deild kvenna í körfubolta í kvöld, 77-68 í Hveragerði.
Gestirnir höfðu frumkvæðið í 1. leikhluta og leiddu að honum loknum, 14-18. Hamar-Þór átti hins vegar frábæran kafla í 2. leikhluta þar sem þær skelltu í lás og skoruðu sautján stig í röð. Staðan í hálfleik var 36-23.
Hamar-Þór hélt öruggu forskoti stærstan hluta seinni hálfleiksins en á lokamínútunum nálgaðist Snæfell örlítið. Munurinn var hins vegar orðinn of mikill til þess að þær hefðu tíma til þess að vinna hann upp.
Astaja Tyghter hélt sínu striki og var með svakalegar tölur fyrir Hamar-Þór, 39 stig og 19 fráköst og framlagseinkunn upp á 55.
Eftir leiki kvöldsins er Hamar-Þór með 8 stig í 6. sæti deildarinnar og fór uppfyrir Snæfell með sigrinum.
Tölfræði Hamars-Þórs: Astaja Tyghter 39/19 fráköst/5 stoðsendingar/4 varin skot, Hildur Björk Gunnsteinsdóttir 9/4 fráköst, Helga María Janusdóttir 8/4 fráköst, Berglind Karen Ingvarsdottir 8, Gígja Marín Þorsteinsdóttir 5, Julia Demirer 4/7 fráköst, Hrafnhildur Magnúsdóttir 2/4 fráköst/5 stoðsendingar, Lovísa Bylgja Sverrisdóttir 2.