Hamar-Þór vann sannfærandi sigur á Fjölni-B í 1. deild kvenna í körfubolta í Þorlákshöfn í dag, 79-58.
Hamar-Þór byrjaði leikinn af krafti og staðan var 26-15 eftir 1. leikhluta. Fjölnir minnkaði muninn í 2. leikhluta og staðan var 37-29 í hálfleik. Í seinni hálfleiknum spilaði Hamar-Þór af öryggi og hélt Fjölni-B í öruggri fjarlægð allan tímann.
Astaja Tyghter var með svakalegt framlag fyrir Hamar-Þór og náði þrefaldri tvennu, skoraði 30 stig, tók 17 fráköst og sendi 12 stoðsendingar. Framlagseinkunn hennar var 51. Lovísa Bylgja Sverrisdóttir skoraði 14 stig og Hrafnhildur Magnúsdóttir 13, auk þess sem hún tók 10 fráköst og sendi 7 stoðsendingar.
Hamar-Þór er í 5. sæti deildarinnar með 16 stig en Fjölnir-B er í 10. sæti með 4 stig.