Nú er undirbúningur í fullum gangi fyrir Jólamót Kjörís í fótbolta sem Íþróttafélagið Hamar heldur í Hamarshöllinni helgarnar 28. og 29. nóvember og 5. og 6. desember.
Óhætt er að segja að þetta mót hafi slegið í gegn en það hefur verið haldið tvívegis áður fyrir 7. – 5. flokk karla og kvenna. Fyrsta árið voru um 400 keppendur, en í ár er búist við um 1.500 stelpum og strákum frá átján félögum að leika listir sínar í hlýjunni í Hamarshöllinni. Auk keppenda mætir fullt af foreldrum og öðrum aðstandendum á svæðið en búist er við að um 5.000 manns komi í heimsókn til Hveragerðis þessar tvær helgar.
Allir keppendur mótsins fá verðlaunapening, ís frá Kjörís og pítsu frá Hoflandsetrinu. Nú er um að gera fyrir Hvergerðinga og nærsveitafólk að kíkja í Hamarshöllina næstu tvær helgar og sjá yngstu iðkendurna sýna meistaratakta í fótbolta.
Mikil vinna er á bak við svona stórt mót og hafa foreldrar og aðrir sjálfboðaliðar verið ótrúlega duglegir við að taka ýmsar vaktir á mótinu. Án þeirra væri þetta ekki hægt. Knattspyrnudeild Hamars væri ótrúlega þakklát fyrir ef fleiri sjálboðaliðar myndu bjóða sig fram og aðstoða við framkvæmd mótsins. Þau sem hafa áhuga á því geta haft samband við Ölla – 8455900 eða ollimagnusson@gmail.com.