Undirbúningur fyrir næsta tímabil er hafinn hjá Ægi í Þorlákshöfn og sem hluti af starfinu er að semja við unga og efnilega leikmenn. Markmið félagsins er alltaf að reyna auka hlutfall uppalinna leikmanna í hópi meistaraflokks.
Í gær skrifuðu þrír ungir leikmenn undir tveggja ára samning við félagið. Þetta eru allt uppaldir leikmenn Ægis sem félagið bindur miklar væntingar og vonir við að verði framtíðar leikmenn meistaraflokks á næstu árum. Þetta eru þeir Atli Rafn Guðbjartsson og Pétur Smári Sigurðsson sem báðir eru 16 ára og Ómar Örn Reynisson, sem er 18 ára.
Í fréttatilkynningu frá félaginu fagna Ægismenn því að hafa náð samningum við þessa efnilegu drengi og hlakkar til samstarfsins á næstu árum. Þetta séu góðar fréttir fyrir félagið og gæfuspor.
Þjálfari meistaraflokks Ægis er sem fyrr Alfreð Elías Jóhannsson, en hann tók við liðinu haustið 2010. Félagið hefur einnig náð samkomulagi við Milos Glogovac sem mun áfram sinna starfi aðstoðarþjálfara sem og leika með liðinu á næsta tímabili.
Lið Ægis spilar í 2. deild og hefur gert síðustu tvö tímabil eftir að hafa komist upp úr 3. deildinni árið 2012.