Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi um verslunarmannahelgina verður kolefnisjafnað. Jöfnunin felst í því að gróðursettar verða tvær trjáplöntur fyrir hvern þátttakanda á mótinu.
Gestum mótsins og þátttakendum verður boðið að koma á golfvöllinn á Selfossi á meðan mótinu stendur, þar sem þeir geta gróðursett plönturnar. Önnur plantan sem hver þátttakandi fær táknar viðkomandi en hin plantan fjölskyldu viðkomandi.
„Þegar við fjölskyldan tókum þátt í Unglingalandsmóti UMFÍ á Höfn í Hornafirði árið 2019 sá ég öll farartækin sem þar voru saman komin og fékk þá hugmynd að kanna áhugann á því að kolefnisjafna mótið með gróðursetningu trjáplantna. Við ræddum þetta hér á kaffistofunni hjá Skógræktinni og var hugmyndinni komið á framfæri við Héraðssambandið Skarphéðinn þar sem vel var tekið í hana,“ segir Hreinn Óskarsson, sviðsstjóri hjá Skógræktinni og umsjónarmaður með kolefnisjöfnun Unglingalandsmótsins. Hreinn er líka sérgreinarstjóri í götuhjólreiðum á mótinu.
Fengu styrk úr Umhverfissjóði UMFÍ
„Við verðum með plöntur til taks á mótssvæðinu og stefnum á að gróðursetja í svæðin á milli brauta á vellinum. Það verður opið í gróðursetningu á ákveðnum tímum sem auglýstir verða síðar og geta þátttakendur komið og gróðursett tré á meðan enn verða til plöntur,“ heldur Hreinn áfram.
„Við erum að slá nokkrar flugur í einu höggi á Selfossi. Í fyrsta lagi kolefnisjöfnum við auðvitað mótið á næstu árum og áratugum eftir því sem trén vaxa, búum til skjól fyrir golfara og vonum svo auðvitað að þetta verði framvegis gert í gróðurreitum víða um land sem tileinkaðir verði ákveðnum viðburðum UMFÍ,“ segir Hreinn.
Framkvæmdanefnd Unglingalandsmótsins á Selfossi fékk styrk úr Umhverfissjóði UMFÍ árið 2020 til að kolefnisjafna mótið og verður það samstarfsverkefni Skógræktarinnar, HSK, Golfklúbbs Selfoss, mótshaldara Unglingalandsmótsins. Því var frestað eins og fleiri viðburðum í fyrra. Nú er hins vegar komið allt á fullt við undirbúning mótsins um verslunarmannahelgina.