Ungmennafélagið ÁS í hóp fyrirmyndarfélaga ÍSÍ

Fanney Ólöf Lárusdóttir, formaður UMFÁS, tekur við viðurkenningunni úr höndum Viðars Halldórssonar sem afhenti viðurkenninguna fyrir hönd ÍSÍ. Ljósmynd/Aðsend

Ungmennafélagið ÁS komst í dag formlega í hóp fyrirmyndarfélaga Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Það var Fanney Ólöf Lárusdóttir, formaður UMFÁS, sem tók við viðurkenningunni fyrir hönd félagsins úr höndum Viðars Halldórssonar fyrir hönd ÍSÍ.

„Við erum mikið stolt af því að hljóta þessa viðurkenningu sem gerir allt okkar starf faglegra og betra. Nú þegar handbókin okkar er tilbúin er stóra verkefnið að fylgja því sem þar kemur fram vel eftir og gæta þess að uppfylla allar þær kröfur sem við viljum standast. Við gerum okkur grein fyrir því að við getum enn gert margt betur og mun handbókin okkar nýtast vel í því verkefni,“ segir Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Skaftárhrepps.

Fanney Ólöf flutti ávarp við afhendinguna þar sem fram kom að þessi viðurkenning sé gríðarlegur heiður fyrir Ungmennafélagið ÁS og félagsmenn allir megi vera stoltir af því að félagið sé orðið fyrirmyndarfélag ÍS eftir tæplega tveggja ára vinnu að því markmiði.

Að lokinni afhendingu viðurkenningarinnar afhenti Magnea Þórarinsdóttir ungmennafélaginu gjöf fyrir hönd Félags eldri borgara í Skaftárhreppi. Gjöfin er nýtt bocciasett en ungmennafélagið hóf nú í byrjun árs að bjóða upp á hreyfingu fyrir 60+ og og mun settið koma að góðum notum þar.

Fyrri greinAðventa og jól í Hveragerðisbæ
Næsta greinMikill vatnsleki í Sunnulækjarskóla