Ungmennalið Selfoss lék sinn síðasta heimaleik í Grill-66 deild karla í handbolta í kvöld þegar Þór Akureyri kom í heimsókn í Set-höllina.
Selfyssingar leiddu allan tímann, þeir skoruðu tvö fyrstu mörkin og náðu mest átta marka forskoti í fyrri hálfleik. Staðan í leikhléi var 17-11.
Þórsarar byrjuðu betur í seinni hálfleiknum og náðu að minnka muninn í 23-20 en þá tóku Selfyssingar aftur við sér og kláruðu leikinn af öryggi. Lokatölur urðu 34-30.
Sæþór Atlason var markahæstur Selfyssinga með 10 mörk, Hans Jörgen Ólafsson skoraði 8, Vilhelm Freyr Steindórsson 7, Haukur Páll Hallgrímsson 4, Gunnar Kári Bragson 3 og Árni Ísleifsson 2. Alexander Hrafnkelsson varði 14 skot í marki Selfoss-U.
Staðan í deildinni er þannig að Selfoss-U er í 7. sæti með 15 stig en Þór er í 9. sæti með 12 stig.