Ungmennalið Selfoss vann góðan sigur á Ungmennaliði Aftureldingar í 1. deild karla í handbolta í kvöld, þegar liðin mættust í Set-höllinni á Selfossi.
Afturelding var skrefinu á undan á upphafsmínútunum en um miðjan fyrri hálfleikinn kom góður kafli hjá Selfyssingum sem náðu í kjölfarið þriggja marka forskoti, 11-8. Selfoss bætti í á lokamínútum fyrri hálfleiks og staðan var 15-11 í leikhléi.
Sigur Selfoss var aldrei í hættu í seinni hálfleiknum, heimamenn náðu mest sex marka forskoti en lokatölur urðu 29-25.
Tryggvi Sigurberg Traustason var markahæstur Selfyssinga með 8/3 mörk, Haukur Páll Hallgrímsson skoraði 6, Sölvi Svavarsson og Ísak Gústafsson 4, Daníel Karl Gunnarsson, Gunnar Flosi Grétarsson og Gunnar Kári Bragason skoruðu allir 2 mörk og Sæþór Atlason 1.
Alexander Hrafnkelsson var í góðum gír í marki Selfoss, varði 17/2 skot og var með 40% markvörslu.
Selfyssingar eru nú komnir upp í 5. sæti deildarinnar, með 6 stig eftir fjóra leiki.