Ungmennaliðið tapaði í spennuleik

Tryggvi Þórisson skoraði sex mörk í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ungmennalið Selfoss tapaði naumlega fyrir ungmennaliði Hauka á Selfossi í kvöld, þegar keppni hófst í Grill-66 deild karla í handbolta eftir jólafrí.

Leikurinn var jafn allan tímann. Selfoss-U hafði frumkvæðið í fyrri hálfleik og komst í 14-11 en Haukar-U jöfnuðu skömmu fyrir leikhlé og staðan var 19-19 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn spilaðist svipað og sá fyrri, Selfoss hafði frumkvæðið framan af en undir lokin tóku Haukar-U af skarið og náðu þriggja marka forskoti, 32-35. Gestirnir kláruðu leikinn af öryggi, héldu Selfyssingum í hæfilegri fjarlægð og sigruðu að lokum 39-40, en Selfoss skoraði síðasta mark leiksins á lokasekúndunni.

Tryggvi Sigurberg Traustason var markahæstur Selfyssinga með 8/1 mörk, Sölvi Svavarsson skoraði 7, Tryggvi Þórisson og Vilhelm Freyr Steindórsson 6, Hans Jörgen Ólafsson 3, Elvar Elí Hallgrímsson, Sæþór Atlason og Guðjón Baldur Ómarsson 2, Árni Ísleifsson 2/2 og Gunnar Flosi Grétarsson 1.

Alexander Hrafnkelsson varði 12 skot í marki Selfoss-U og var með 24% markvörslu.

Selfoss-U er áfram í 5. sæti deildarinnar með 12 stig en Haukar-U eru í 6. sæti, nú með 10 stig.

Fyrri greinÖll börnin og allt starfsfólkið í einangrun eða sóttkví
Næsta greinHrunamenn fundu ekki taktinn