Ungmennalið Selfoss vann öruggan sigur á botnliði Kórdrengja í Grill-66 deild karla í handbolta í kvöld, 34-29.
Selfyssingar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik, þeir byrjuðu af krafti og voru komnir með fimm marka forskot eftir 15 mínútur, 10-5. Staðan í hálfleik var 20-15.
Í seinni hálfleiknum náðu Selfyssingar fljótlega 10 marka forskoti en í kjölfarið slaknaði á einbeitingu ungmennanna og Kórdrengir minnkuðu muninn niður í þrjú mörk þegar tvær mínútur voru eftir. Nær komust gestirnir þó ekki og Selfyssingar bættu í forskotið á lokamínútunum.
Sæþór Atlason var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Hans Jörgen Ólafsson skoraði 5, Gunnar Flosi Grétarsson og Árni Ísleifsson 4, Sigurður Snær Sigurjónsson og Anton Breki Hjaltason 3, Valdimar Örn Ingvarsson, Gunnar Kári Bragason og Vilhelm Freyr Steindórsson 2 og Patrekur Þór Öfjörð og Jón Þórarinn Þorsteinsson skoruðu 1 mark hvor.
Jón Þórarinn varði 7 skot í marki Selfoss og það gerði einnig Karl Jóhann Einarsson.
Selfyssingar eru í 5. sæti deildarinnar með 5 stig en Kórdrengir eru á botninum án stiga.