Ungmennalið Selfoss velgdi toppliði ÍR sannarlega undir uggum í Grill66 deild karla í handbolta í kvöld, þegar liðin mættust á Selfossi.
Selfoss-U hafði frumkvæðið í fyrri hálfleik og leiddi 17-16 í leikhléi. Áfram var mjótt á mununum fram eftir seinni hálfleik en þegar fimmtán mínútur voru eftir fóru Selfyssingar að gefa eftir. ÍR breytti stöðunni úr 25-23 í 27-30 þegar tíu mínútur voru eftir og gestirnir reyndust svo sterkari á lokakaflanum og sigruðu 31-35.
Guðjón Baldur Ómarsson og Tryggvi Sigurberg Traustason voru markahæstir Selfyssinga með 7 mörk, Sigurður Snær Sigurjónsson skoraði 6, Sölvi Svavarsson og Vilhelm Freyr Steindórsson 3, Haukur Páll Hallgrímsson 2 og þeir Gunnar Flosi Grétarsson, Gunnar Kári Bragason og Hans Jörgen Ólafsson skoruðu allir 1 mark.
Selfoss-U er áfram í 5. sæti deildarinnar með 12 stig en ÍR hefur 22 stig í toppsætinu.