Selfyssingar klífa upp töfluna í 2. deild karla í knattspyrnu eftir 2-1 sigur gegn Völsungi á heimavelli í kvöld.
Selfossliðið var sterkara í fyrri hálfleik og það voru ungu mennirnir í liðinu sem kláruðu leikinn fyrir Selfoss. Þorsteinn Aron Antonsson, sextán ára varnarmaður, kom heimamönnum yfir strax á 9. mínútu eftir klafs í vítateig Völsungs uppúr aukaspyrnu. Annars voru færin ekki mörg áður en Guðmundur Tyrfingsson, sautján ára sóknarmaður, lék varnarmenn Völsungs grátt á 31. mínútu og skoraði gott mark.
Staðan var 2-0 í hálfleik og strax á áttundu mínútu seinni hálfleiks fengu gestirnir ódýra vítaspyrnu þegar Gylfi Dagur Leifsson braut af sér í teignum að mati dómarans. Annars var seinni hálfleikurinn mjög rólegur þangað til tíu mínútur voru eftir að hann opnaðist aðeins. Völsungar leituðu að jöfnunarmarkinu en fundu það ekki og Selfyssingar fögnuðu stigunum.
Selfoss hefur nú 6 stig í 3. sæti deildarinnar en liðin í kring um þá eiga mörg leik til góða.