Unnur Dóra Bergsdóttir og Kristrún Rut Antonsdóttir hafa framlengt samninga sína við knattspyrnudeild Selfoss, Unnur Dóra til tveggja ára og Kristrún Rut til eins árs. Báðar hafa þær verið lykilmenn í liði Selfoss síðustu misserin og Unnur Dóra hefur borið fyrirliðabandið í sumar.
Unnur Dóra er 22 ára miðjumaður sem hefur allan sinn feril leikið á Selfossi. Hún spilaði sína fyrstu meistaraflokksleiki 16 ára gömul í Pepsi-deildinni 2016 og hefur nú leikið 111 leiki fyrir félagið, þar af 63 í efstu deild.
Kristrún, sem er 27 ára miðjumaður, gekk aftur í raðir Selfoss sumarið 2021 eftir að hafa leikið víðsvegar um Evrópu á síðustu árum. Hún hefur leikið 141 meistaraflokksleik fyrir Selfoss, þar af 73 í efstu deild.
Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss, segir það mikið gleðiefni að þessir tveir leikmenn hafi ákveðið að framlengja samninga sína við félagið.
„Unnur er fyrirliðinn okkar og hún hefur tekið miklum framförum á tímabilinu. Það verður spennandi að fylgjast með henni halda áfram að þroska leik sinn. Kristrún byrjaði tímabilið af miklum krafti og var algjör lykill að sterkri pressu liðsins auk þess að gefa mikið í sóknarleikinn með sínu óeigingjarna vinnuframlagi. Meiðsli hafa sett strik í reikninginn hjá henni síðari hluta mótsins en við hlökkum mikið til að taka upp þráðinn aftur þegar hún nær heilsu,“ segir Björn.