Árleg folaldasýning Hrossaræktarfélags Hrunamannahrepps fór fram í Reiðhöllinni á Flúðum fyrir skömmu. Var 21 folald af fjölbreyttu ætterni mætt til leiks.
Var þar m.a. að finna afkvæmi nokkura af hæstdæmdu hrossa undanfarinna ára ásamt „uppkjöftuðum“ ungfolum sem og niðurníddum gamal gröddum, að því er heyra mátti á pöllunum.
Dómari var Hallgrímur Birkisson í Kirkjubæ og raðaði hann í þrjú efstu sæti í hest- og merfolalda flokkum og áhorfendur kusu svo glæsilegasta folaldið.
Er það til marks um hvað folöldin voru jöfn að dreifing atkvæða var mun meiri en undanfarin ár. Fór svo að Hetja frá Haukholtum marði þar sigur.
Efstu folöldin urðu í hestfolaldaflokki: Vestri frá Túnsbergi, brúnn, undan Loka frá Selfossi og Visku frá Túnsbergi. Ræktandi og eigandi er Bragi Viðar Gunnarsson. Í flokki merfolalda varð Una frá Hrepphólum, undan Bikari frá Syðri-Reykjum og Gyðju frá Hrepphólum, en ræktandi og eigandi er Hulda Hrönn Stefánsdóttir.