Báðum starfsmönnum Ungmennafélags Selfoss verður sagt upp störfum vegna stefnumótunarvinnu sem framundan er hjá félaginu.
Örn Guðnason hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra félagsins undanfarin ár og Hansína Kristjánsdóttir hefur verið í hálfu starfi sem bókari. Bæði hafa þau þriggja mánaða uppsagnarfrest.
Kristín Bára Gunnarsdóttir, formaður Umf. Selfoss, sagði í samtali við sunnlenska.is að í stefnumótunarvinnunni sem framundan er verði farið í gegnum skipurit félagsins og þar á meðal er endurmat á þeim störfum sem nú eru á aðalskrifstofu félagsins.
“Til þess að skapa nauðsynlegt svigrúm til þeirra breytinga verður báðum starfsmönnum félagsins sagt upp. Það hefur engin ákvörðun verið tekin ennþá um framhaldið í starfsmannamálum þar sem það ræðst af því sem kemur út úr stefnumótunarvinnunni,“ sagði Kristín Bára í samtali við sunnlenska.is.
Kristín Bára segir spennandi tíma framundan hjá Ungmennafélagi Selfoss sem hefur nú til afnota eina glæsilegustu íþróttaaðstöðu landsins með öllum þeim framkvæmdum sem hafa farið fram á íþróttamannvirkjum á undanförnum árum.
„Aðstaðan hefur gerbreytt þeim tækifærum sem félagið í heild sinni getur nú nýtt sér og einstakar deildir innan þess og til þess að aðlaga okkur að þessu nýja umhverfi er ungmennafélagið að fara í stefnumótunarvinnu til næstu fimm ára, sem hefst vonandi í þessum mánuði og verður kláruð fyrir lok janúar 2013 með þátttöku sem flestra,“ sagði Kristín Bára að lokum.