Nýtt lið Uppsveita byrjar af krafti í 4. deild karla í knattspyrnu en í kvöld sigraði liðið Ými 1-3 á útivelli í 1. umferð.
Það tók Guðmund Karl Eiríksson ekki nema nokkrar sekúndur að skora fyrsta mark Uppsveita á Íslandsmótinu og eftir rúman hálftíma hafði Kristinn Sölvi Sigurgeirsson tvöfaldað forskot liðsins. Staðan var 0-3 í leikhléi eftir að leikmaður Ýmis hafði skorað sjálfsmark undir lok fyrri hálfleiks.
Seinni hálfleikurinn var ekki alveg eins fjörugur. Ýmir náði að minnka muninn um miðjan hálfleikinn og þar við sat, lokatölur 1-3.
Uppsveitir eru í sterkum riðli í 4. deildinni en meðal andstæðinga liðsins í sumar eru ÍH, GG og KFS.