Alls voru 23 mörk skoruð í fjórum leikjum sunnlensku liðanna í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Uppsveitir og KFR unnu sína leiki en Hamar og Árborg töpuðu.
Uppsveitir unnu auðveldan sigur á KB á Flúðum. Aron Freyr Margeirsson og George Razvan komu Uppsveitum í 2-0 í fyrri hálfleiknum og þannig stóðu leikar í leikhléi. Razvan bætti svo við fjórum mörkum á síðustu tuttugu mínútum leiksins og lokatölur urðu 6-0.
KFR var í miklu stuði gegn Smára í Kópavoginum. Smári komst í 2-0 á fyrsta korterinu en þá hrukku Rangæingar í gang og röðuðu inn mörkunum. Hjörvar Sigurðsson skoraði tvívegis af vítapunktinum og jafnaði 2-2 og á eftir fylgdu mörk frá Unnari Jóni Ásgeirssyni og Rúnari Þorvaldssyni. Staðan var 2-4 í hálfleik og KFR byrjaði seinni hálfleikinn með hvelli þegar Óliver Jóhannsson og Bjarni Þorvaldsson skoruðu með mínútu millibili og staðan orðin 2-6 í upphafi seinni hálfleiks. Hjörvar innsiglaði svo þrennuna um miðjan seinni hálfleikinn og tryggði KFR 2-7 sigur.
Hamar tók á móti GG í gríðar mikilvægum leik í toppbaráttu D-riðils. GG komst yfir snemma leiks en Jou Calzada jafnaði fyrir Hamar og staðan var 1-1 í leikhléinu. GG komst yfir aftur þegar tæpt korter var liðið af seinni hálfleiknum en Matthías Ramos Rocha jafnaði metin fyrir Hamar þegar tíu mínútur voru eftir. Tveimur mínútum fyrir leikslok tókst GG svo að skora sigurmark leiksins og lokatölur urðu 2-3.
Þá fóru Árborgarar sneypuför suður með sjó þar sem þeir mættu Höfnum í Reykjaneshöllinni. Heimamenn komust yfir snemma leiks og bættu öðru marki við um miðjan fyrri hálfleikinn. Staðan var 2-0 í leikhléi en þriðja mark Hafna kom svo þegar korter var eftir, af vítapunktinum, og lokatölur urðu 3-0.
Staðan í C-riðlinum er þannig að Uppsveitamenn hafa öruggt forskot á toppnum með 27 stig en Árborg er í 2. sæti með 22 stig og hafa fimm stiga forskot á Hafnir.
Spennan er meiri í D-riðlinum þar sem Hamar og GG eru jöfn í 2.-3. sæti með 20 stig en Hamar hefur töluvert betri markatölu. KFR er í 4. sæti með 16 stig.