Lið Uppsveita, Ægis og KFR eru öll komin áfram í 2. umferð Mjólkurbikars karla í knattspyrnu eftir góða sigra í dag.
Það var sannkölluð markaveisla á gervigrasinu á Selfossi þar sem Uppsveitir og Hamar mættust í Suðurlandsslag. Eftir nokkrar sekúndur hafði markahrókurinn George Razvan komið Uppsveitum yfir og þeir rauðu lágu í kjölfarið í sókn. Það skilaði tveimur mörkum fyrir hálfleik en Razvan og Sergio Fuentes skoruðu sitthvort markið og staðan var 3-0 í leikhléi.
Þeir félagarnir bættu svo báðir við tveimur mörkum í seinni hálfleiknum og tryggðu Uppsveitum 7-0 sigur. Þegar upp var staðið hafði Razvan skorað fjögur mörk og lagt upp þrjú og Fuentes skoraði þrjú og lagði upp tvö.
Dramatík hjá Ægi
Ægir heimsótti Reyni Sandgerði á gervigrasið í Reykjanesbæ. Leikurinn var markalaus fyrstu 86 mínúturnar en þá fóru hlutirnir að gerast. Reynismenn komust yfir, fjórum mínútum fyrir leikslok, en á lokamínútunni jafnaði Cristofer Rolin fyrir Ægi. Ægismenn höfðu engan áhuga á framlengingu og á fjórðu mínútu uppbótartímans skallaði Atli Rafn Guðbjartsson boltann eftir hornspyrnu í netið og tryggði Ægi farseðilinn í 2. umferðina.
Helgi Valur á skotskónum
Í kvöld mættust svo Skallagrímur og KFR í Akraneshöllinni. Rangæingar mættu vel stemmdir til leiks og Hjörvar Sigurðsson kom þeim í 0-1 á 18. mínútu og Helgi Valur Smárason bætti svo við marki úr vítaspyrnu á 37. mínútu. Skallagrímur svaraði fyrir sig í seinni hálfleik, án þess þó að ógna sigri KFR. Borgnesingar minnkuðu muninn á 70. mínútu en sex mínútum síðar skoraði Helgi Valur aftur og kom KFR í 1-3. Skallagrímur fékk svo ódýrt víti rétt undir leikslok og minnkaði þar muninn í 2-3, sem urðu lokatölur leiksins.
Fimm sunnlensk lið í 2. umferð
Önnur umferð Mjólkurbikarsins hefst á skírdag þegar Árborg tekur á móti Kára. Umferðinni lýkur svo á laugardag þar sem Uppsveitir fá KÁ í heimsókn og KFR tekur á móti KH. Selfoss á útileik í Kópavogi gegn KFK og á sama velli mætast Smári og Ægir.