Uppsveitir tryggðu sér í kvöld sæti í úrslitakeppni 4. deildar karla í knattspyrnu með öruggum 5-0 sigri á Höfnum á heimavelli á Flúðum.
Uppsveitir hafa 30 stig í efsta sæti C-riðils og þar á eftir kemur Árborg með 25 stig. Álftanes er í 3. sæti með 18 stig, þegar þrjár umferðir eru eftir. Uppsveitamenn eru því komnir í úrslitakeppni deildarinnar og hafa um leið tryggt sér að minnsta kosti sæti í nýrri 4. deild á næsta keppnistímabili en þá verða gerðar breytingar á skipulagi deildarkeppninnar á Íslandi.
Máni Snær Benediktsson kom Uppsveitum í 1-0 á 22. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik. Seinni hálfleikurinn byrjaði fjörlega og markamaskínan George Razvan skoraði þrennu á átján mínútna kafla. Fjölnir Brynjarsson átti svo lokaorðið og tryggði Uppsveitum 5-0 sigur.