Uppsveitir heimsóttu topplið Mídasar á Víkingsvöllinn í 5. deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi.
Þetta reyndist ekki ferð til fjár, Mídas var kominn í 2-0 eftir átján mínútna leik og þannig var staðan í hálfleik.
Mídas bætti þriðja markinu við í upphafi seinni hálfleiks og innsiglaði síðan 4-0 sigur með marki á 78. mínútu.
Uppsveitamenn áttu fá svör við þessum og ekki batnaði staðan þegar Pétur Geir Ómarsson fékk sitt annað gula spjald á 85. mínútu og luku þeir rauðu því leik tíu gegn ellefu.
Staðan í riðlinum er þannig að Mídas er á toppnum með 12 stig en Uppsveitir í 6. sæti með 3 stig.