Uppsveitir og KFR töpuðu

George Razvan minnkaði muninn fyrir Uppsveitir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Uppsveitir og KFR töpuðu bæði leikjum sínum í 5. deild karla í knattspyrnu í dag og Rangæingar eru dottnir úr toppsætinu.

Uppsveitir fengu Mídas í heimsókn á Flúðavöll og þar komust gestirnir yfir strax á 4. mínútu. Mídas bætti svo við öðru marki um miðjan fyrri hálfleikinn og staðan var 0-2 í leikhléi. George Razvan minnkaði muninn þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik en fimm mínútum síðar fengu gestirnir vítaspyrnu og breyttu stöðunni í 1-3. Mídas átti svo síðasta orðið með marki á 82. mínútu sem tryggði þeim 1-4 sigur.

Rangæingar flugu vestur á Ísafjörð í dag þar sem þeir mættu Herði í hörkuleik. Leikurinn var markalaus allt þar til tæpar tíu mínútur voru til leiksloka að Hörður komst yfir og fjórum mínútum síðar bættu Harðverjar við öðru marki. Á áttundu mínútu uppbótartímans fengu Rangæingar vítaspyrnu og úr henni skoraði Helgi Valur Smárason, lokatölur 2-1.

Mídas skaust í toppsætið á B-riðlinum með sigrinum á Flúðum í dag, er með 28 stig en KFR er nú í 3. sæti með 25 stig. Uppsveitir sitja í 6. sæti með 10 stig.

Fyrri greinFram hafði betur í botnslagnum
Næsta greinFlutt með þyrlu eftir slys við Hengilinn