Uppsveitir unnu öruggan sigur á Afríku í lokaumferð C-deildar Lengjubikars karla í knattspyrnu í gær.
Liðin mættust á Leiknisvellinum í Breiðholti og er skemmst frá því að segja að lokatölur urðu 12-0. Staðan var 7-0 í hálfleik. Máni Snær Benediktsson var markahæstur Uppsveitamanna með 5 mörk, Pétur Geir Ómarsson skoraði 4 og Kristinn Sölvi Sigurgeirsson 3.
Uppsveitir eru í 2. sæti í riðli 4 með 7 stig en KFR á leik til góða í lokaumferðinni og getur lyft sér upp í 2. sætið.
Á sama tíma lék Árborg gegn KM Reykjavík á KR-vellinum. Þar vildi boltinn ekki í netið fyrr en um miðjan seinni hálfleikinn þegar Hartmann Antonsson kom Árborg yfir. KM svaraði með tveimur mörkum á stuttum tíma en Magnús Hilmar Viktorsson jafnaði úr víti á 79. mínútu og tryggði Árborg 2-2 jafntefli.
Árborg er í 4. sæti riðils 1 með 4 stig þegar einni umferð er ólokið.