Uppsveitir og Stokkseyri léku síðustu leiki sína í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í dag. Uppsveitir unnu góðan sigur en Stokkseyringar töpuðu stórt.
Uppsveitamenn voru í miklum ham þegar þeir heimsótti KM á gervigrasið við Kórinn í Kópavogi. Máni Snær Benediktsson kom þeim yfir á 20. mínútu en KM jafnaði þremur mínútum síðar. Máni fór á vítapunktinn skömmu síðar og kom Uppsveitum í 1-2 og á eftir fylgdu mörk frá Pétri Geir Ómarssyni og Guðjóni Erni Sigurðssyni. Staðan var 1-4 í hálfleik. Í seinni hálfleik brustu allar flóðgáttir Pétur Geir innsiglaði þrennu sína og Máni Snær gerði gott betur og hafði skorað fjögur mörk þegar upp var staðið. Lokatölur 1-8.
Uppsveitir luku keppni í 3. sæti riðilsins með 6 stig. Athygli vekur að einu sigrar liðsins í keppninni komu þegar Gísli Þór Brynjarsson, formaður meistaraflokksráðs, var settur í byrjunarliðið og setur hann þannig mikla pressu á Liam Killa þjálfara þegar kemur að því að stilla upp liði í næstu leikjum.
Á gervigrasinu á Selfossi mættust Stokkseyri og Vængir Júpíters. Stokkseyri byrjaði vel og Arilíus Óskarsson kom þeim yfir á upphafsmínútu leiksins. Vængir jöfnuðu þremur mínútum síðar og skoruðu svo tvö mörk til viðbótar um miðjan fyrri hálfleikinn, staðan 1-3 í hálfleik. Í seinni hálfleik fór allt í skrúfuna hjá Stokkseyringum og Vængirnir röðuðu inn mörkunum. Staðan var orðin 1-8 áður en Erlingur Örn Birgisson skoraði sárabótarmark fyrir Stokkseyri á lokamínútunni.
Stokkseyringar eru í 4. sæti síns riðils með 3 stig og það verður líklega sæti þeirra þegar keppni í riðlinum er lokið.