Það var vel tekið á því þegar Uppsveitir tóku á móti Stokkseyri í Suðurlandsslag í 5. deild karla í knattspyrnu á Flúðum í kvöld.
Fyrri hálfleikur var markalaus en George Razvan braut ísinn á 55. mínútu og kom Uppsveitum yfir. Daniel Costel Boca kom Uppsveitum í enn þægilegri stöðu á 68. mínútu þegar hann tvöfaldaði forskot þeirra en fimm mínútum síðar minnkaði Karl Jóhann Einarsson muninn fyrir Stokkseyri.
Uppsveitamenn reyndust hins vegar sterkari á lokakaflanum og á 92. mínútu innsiglaði George Razvan 3-1 sigur þeirra með sínu öðru marki í leiknum.
Staðan í riðlinum er þannig að Uppsveitir eru í 6. sæti með 6 stig en Stokkseyri er í 8. sætinu, enn án stiga.