Selfoss tapaði 1-0 fyrir HK í 1. deild karla í knattspyrnu á JÁVERK-vellinum í kvöld. Sigurmarkið kom á 90. mínútu en Selfyssingar léku manni færri síðustu tuttugu mínúturnar.
„Það var virkilega svekkjandi að tapa þessum leik þar sem mér fannst við stjórna honum alveg þangað til við missum mann af velli. Við vorum óheppnir, eða kannski klaufar, að vera ekki búnir að skora á þeim tímapunkti. Eftir að við urðum færri þá lágu þeir svolítið á okkur og við reyndum að vera klókir að velja réttu pressuna en það var alveg hrikalegt að fá þetta mark á sig á 90. mínútu,“ sagði Einar Ottó Antonsson, fyrirliði Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Selfyssingar komu HK-mönnum á óvart með nýrri uppstillingu, spiluðu 3-5-2, eins og HK-liðið, og úr varð opinn og skemmtilegur leikur, en Selfyssingar höfðu frumkvæðið lengst af. Einar var ánægður með framlag liðsins í nýja kerfinu í kvöld.
„Fyrri hálfleikurinn var svolítið mikil hlaup, við vorum að spila þetta í fyrsta sinn og vorum kannski ekki alveg öruggir á öllum færslunum, en það leit samt ekkert illa út hjá okkur. En þegar upp er staðið þá eru þessi úrslit alveg grátleg.“
Leikurinn var bráðfjörugur í fyrri hálfleik og bæði lið áttu álitlegar skyndisóknir og hálffæri á rennblautum vellinum. Besta færi hálfleiksins fékk Jordan Edridge á 27. mínútu þegar hann átti þrumuskot að marki úr vítateignum en Beitir Ólafsson varði stórkostlega í marki HK.
Selfyssingar voru betri í upphafi seinni hálfleiks og virtust líklegri til þess að skora. Á 67. mínútu varð vendipunktur í leiknum þegar varnarmaðurinn Halldór Arnarsson fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt – í sínum fyrsta leik fyrir Selfoss. Í kjölfarið gerði Zoran Miljkovic dularfulla breytingu á miðjunni, tók Maniche útaf og setti Marco Pavlov en Maniche hafði verið mjög sterkur á miðjunni.
Á 73. mínútu áttu HK menn sitt fyrsta skot á rammann, og þau áttu aðeins eftir að verða tvö í kvöld.
Selfyssingar reyndu að beita skynseminni og voru þéttir fyrir í vörninni síðustu tuttugu mínúturnar en sóknir HK þyngdust á lokakaflanum. Gestirnir uppskáru svo mark á 90. mínútu eftir klaufalega tilburði Elton Barros á miðjunni. Selfoss missti boltann og HK refsaði með skoti Jóns Gunnars Eysteinssonar á vítateigslínunni. Bang og mark.
Selfoss hefur 3 stig í 4. sæti deildarinnar en velflest liðin fyrir neðan á töflunni eiga leik til góða. HK er hins vegar í toppsætinu með 6 stig og markatöluna 3-0.
Næsti leikur Selfoss er gegn Víkingi í Ólafsvík laugardaginn 23. maí.