Eftir æsispennandi lokamínútur í Frystikistunni í Hveragerði tapaði Hamar, 73-76, fyrir Hetti í 1. deild karla í körfubolta. Höttur tryggði sér sigurinn með þriggja stiga flautukörfu.
Liðin fóru virkilega hægt af stað og eftir rúmar sex mínútur var staðan 2-8 fyrir Hetti. Hamar svaraði með 8-2 kafla og staðan var 10-10 að loknum 1. leikhluta.
Hamar tók öll völd á vellinum í 2. leikhluta, komst í 29-18 og leiddi 40-28 í hálfleik.
Í 3. leikhluta voru Hattarmenn atkvæðameiri en Hamar var skrefi á eftir og gestirnir unnu stigamuninn auðveldlega upp. Hamar leiddi 52-47 þegar tvær og hálf mínúta voru eftir af 3. leikhluta en Höttur skoraði sjö síðustu stigin í fjórðungnum og jafnaði 52-52 á lokasekúndunum.
Síðasti fjórðungurinn var kaflaskiptur og spennandi. Hamar leiddi 67-62 þegar rúmar tvær og hálf mínútur voru eftir en Höttur komst þá yfir með tveimur þriggja stiga körfum í röð. Hamar jafnaði 71-71 þegar tæp hálf mínúta var eftir. Höttur setti niður tveggja stiga körfu þegar þrjár sekúndur voru eftir en Hamar brunaði í sókn þar sem brotið var á Bjarna Rúnari Lárussyni. Hann fór sallarólegur á vítapunktinn þegar 1,2 sekúnda var eftir af leiknum og setti niður bæði skotin.
Staðan var þá 73-73 og 1,2 sekúnda á klukkunni og sá tími dugði Hattarmönnum til að ná stökkskoti utan af velli sem small í körfunni um leið og lokaflautan gall.
Terrence Worthy var stigahæstur hjá Hamri með 20 stig, Louie Arron Kirkman skoraði 17 en maður leiksins hjá Hamri var Bjartmar Halldórsson með 14 stig og 6 stoðsendingar.
Hamar hefur tapað báðum leikjum sínum í deildinni og mætir Skallagrím á útivelli í næstu umferð.