Þór Þorlákshöfn var grátlega nálægt sínum fyrsta sigri í úrvalsdeild karla í körfubolta þegar liðið heimsótti KR í Vesturbæinn í kvöld.
Þórsarar komust í 2-10 í upphafi leiks en KR jafnaði 14-14 um miðjan 1. leikhluta. KR náði í kjölfarið sex stiga forystu en Ragnar Örn Bragason lokaði 1. leikhluta á þriggja stiga körfu og minnkaði muninn í 27-24 áður en 1. leikhluta lauk. Jafnræði var með liðunum í 2. leikhluta og staðan í hálfleik var 48-45.
Spennan hélt áfram í 3. leikhluta, KR var skrefinu á undan í upphafi en undir lok leikhlutans komust Þórsarar yfir, 64-67. KR skoraði hins vegar fimm síðustu stigin í leikhlutanum og staðan var 71-69 þegar síðasti fjórðungurinn hófst.
Þór náði fimm stiga forskoti í upphafi 4. leikhluta og héldu forystunni allt þar til á lokamínútunni sem var ekki góð fyrir Þórsara. KR skoraði átta stig á 43 sekúndna kafla og komst yfir 86-83 þegar sextán sekúndur voru eftir af leiknum. Þórsarar áttu síðustu körfu leiksins og lokatölur urðu 86-85.
Kinu Rochford átti góðan leik fyrir Þór í kvöld en hann skoraði 20 stig og var sterkur undir báðum körfunum. Nikolas Tomsick var sömuleiðis öflugur en hann var stigahæstur með 24 stig.
Tölfræði Þórs: Nikolas Tomsick 24/4 fráköst/5 stoðsendingar, Kinu Rochford 20/9 fráköst/7 stoðsendingar, Ragnar Örn Bragason 12, Davíð Arnar Ágústsson 11, Halldór Garðar Hermannsson 10/4 fráköst, Emil Karel Einarsson 6/4 fráköst, Magnús Breki Þórðason 2.