Úrslitin réðust á lokasekúndunum í Frystikistunni

Hana Ivanusa skorar tvö af 21 stigi sínu í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar/Þór tók á móti Tindastól í æsispennandi leik í úrvalsdeild kvenna í körfubolta í Frystikistunni í Hvergerði í kvöld.

Hamar/Þór byrjaði betur og komst í 20-9 en þá kviknaði á gestunum sem gerðu áhlaup og jöfnuðu 24-24. Staðan var 31-35 að loknum 1. leikhluta. Annar leikhluti var í járnum og allt jafnt í hálfleik, 55-55.

Baráttan var hörð í seinni hálfleiknum, þar sem Hamar/Þór náði að búa sér til forskot með því að skora tíu stig í röð undir lok 3. leikhluta og í upphafi þess fjórða og staðan þá orðin 85-78. Hamar/Þór náði 10 stiga forskoti í kjölfarið en þá kom afleitur kafli heimakvenna og Tindastóll jafnaði 96-96 þegar tvær og hálf mínúta voru eftir af leiknum.

Tindastóll var skrefinu á undan á lokamínútunum, Hamar/Þór jafnaði 103-103 þegar 19 sekúndur voru eftir en Tindastóll tryggði sér sigurinn með sniðskoti þegar fjórar sekúndur voru á klukkunni. Í kjölfarið klikkaði þriggja stiga tilraun Hamars á lokasekúndunni og gestirnir fögnuðu 103-105 sigri.

Abby Beeman var stiga- og framlagshæst í liði Hamars/Þórs með 27 stig og 16 stoðsendingar. Hana Ivanusa skilaði sömuleiðis drjúgu dagsverki, skoraði 21 stig, tók 5 fráköst, sendi 5 stoðsendingar, stal 5 boltum og varði 3 skot.

Randi Brown var stigahæst hjá Tindastól með 42 stig, þar af 16 af vítalínunni.

Bæði lið voru með 6 stig fyrir leikinn en eftir hann er staðan þannig að Tindastóll er í 5. sæti með 8 stig og Hamar/Þór í 7. sæti með 6 stig.

Hamar/Þór-Tindastóll 103-105 (31-35, 24-20, 28-23, 20-27)
Tölfræði Hamars/Þórs: Abby Beeman 27/6 fráköst/16 stoðsendingar, Hana Ivanusa 21/5 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir/3 varin skot, Anna Soffía Lárusdóttir 13/6 fráköst, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 10, Gígja Rut Gautadóttir 10, Fanney Ragnarsdóttir 9, Bergdís Anna Magnúsdóttir 6, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 4, Matilda Sóldís Svan 3.

Fyrri greinLífrænt er vænt og grænt
Næsta greinBændur í velsældarhagkerfi framtíðar