Hamar/Þór tók á móti Tindastól í æsispennandi leik í úrvalsdeild kvenna í körfubolta í Frystikistunni í Hvergerði í kvöld.
Hamar/Þór byrjaði betur og komst í 20-9 en þá kviknaði á gestunum sem gerðu áhlaup og jöfnuðu 24-24. Staðan var 31-35 að loknum 1. leikhluta. Annar leikhluti var í járnum og allt jafnt í hálfleik, 55-55.
Baráttan var hörð í seinni hálfleiknum, þar sem Hamar/Þór náði að búa sér til forskot með því að skora tíu stig í röð undir lok 3. leikhluta og í upphafi þess fjórða og staðan þá orðin 85-78. Hamar/Þór náði 10 stiga forskoti í kjölfarið en þá kom afleitur kafli heimakvenna og Tindastóll jafnaði 96-96 þegar tvær og hálf mínúta voru eftir af leiknum.
Tindastóll var skrefinu á undan á lokamínútunum, Hamar/Þór jafnaði 103-103 þegar 19 sekúndur voru eftir en Tindastóll tryggði sér sigurinn með sniðskoti þegar fjórar sekúndur voru á klukkunni. Í kjölfarið klikkaði þriggja stiga tilraun Hamars á lokasekúndunni og gestirnir fögnuðu 103-105 sigri.
Abby Beeman var stiga- og framlagshæst í liði Hamars/Þórs með 27 stig og 16 stoðsendingar. Hana Ivanusa skilaði sömuleiðis drjúgu dagsverki, skoraði 21 stig, tók 5 fráköst, sendi 5 stoðsendingar, stal 5 boltum og varði 3 skot.
Randi Brown var stigahæst hjá Tindastól með 42 stig, þar af 16 af vítalínunni.
Bæði lið voru með 6 stig fyrir leikinn en eftir hann er staðan þannig að Tindastóll er í 5. sæti með 8 stig og Hamar/Þór í 7. sæti með 6 stig.
Hamar/Þór-Tindastóll 103-105 (31-35, 24-20, 28-23, 20-27)
Tölfræði Hamars/Þórs: Abby Beeman 27/6 fráköst/16 stoðsendingar, Hana Ivanusa 21/5 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir/3 varin skot, Anna Soffía Lárusdóttir 13/6 fráköst, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 10, Gígja Rut Gautadóttir 10, Fanney Ragnarsdóttir 9, Bergdís Anna Magnúsdóttir 6, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 4, Matilda Sóldís Svan 3.