Karlalið Selfoss í knattspyrnu er við æfingar á Isla Canela á Spáni þessa dagana. Til stóð að liðið léki æfingaleik í gær gegn spænsku liði en ef því varð ekki.
Spánverjarnir buðu einungis upp á gervigras þannig að Selfyssingar afþökkuðu boðið.
Þess í stað var leikinn innbyrðis leikur þar sem A-lið Guðmundar Benediktssonar, þjálfara, lék gegn stjörnuliði Ómars Valdimarssonar, aðstoðarþjálfara.
Liðsskipan A-liðsins var ekki árennileg og hurfu flestir leikmenn þess í skuggann af Tómasi Þóroddssyni. Aðrir leikmenn voru Stefán Ragnar, Agnar Bragi, Elías, Ingþór, Andri, Gunnar Borgþórs, Ingó og Veðurguðirnir, Jón Guðbrandssson, Ingi Rafn, Árni Páll, Halldór Björnsson og Óskar Ar.
Í stjörnuliði Ómars voru kempur á borð við Jóhann Ólaf, Sigurð Eyberg, Kjartan í Birtingaholti, Jón Sveinsson, Jón Daða, Henning, Arilíus, Guðmund Þórarinsson, Sævar Þór, Davíð, Trausta Hrafnsson og Þorstein tannlækni Pálsson.
Liðin öttu kappi í þremur keppnum. Fyrst var keppt í fótboltagolfi þar sem helst bar til tíðinda að Tómas Þóroddsson vann Guðmund Þórarinsson. Þá vakti undrun að Sævar Þór vann Elías. A-lið Guðmundar vann þessa keppni.
Þá fór fram vítakeppni sem A-liðið vann einnig og skoruðu allir leikmenn þess nema þjálfarinn sjálfur.
Í liði Ómars klikkuðu fyrrverandi vítaskyttur Selfossliðsins, Sævar Þór og Jón Sveinsson, auk þess sem nýliðinn Kjartan í Birtingaholti misnotaði sína spyrnu.
Að lokum léku liðin 2×45 mínútna knattspyrnuleik. Stjörnulið Ómars komst í 2-0 snemma leiks með mörkum frá Davíð og Henning (vsp.). A-liðið tók hins vegar við sér fyrir leikhlé og komst yfir, 2-3, með mörkum frá Jóni Guðbrands, Árna Páli og Ingó Tóta. Í síðari hálfleik var barist af hörku en Sævar Þór fiskaði aðra vítaspyrnu sína og Henning skoraði aftur af punktinum.
Í spjalli við sunnlenska.is sagði Tómas Þóroddsson, tæknilegur ráðgjafi liðsins, að vel fari um liðsmenn á Canela. Þegar sunnlenska.is sló á þráðinn var hópurinn staddur á breskum pöbb og í bakgrunni hljómaði söngur og gítarsláttur Ingólfs Þórarinssonar sem ku hafa fengið tilboð frá eigendum staðarins um að verða eftir og skemmta þar reglulega í sumar.