Þátttakendur frá Ungmennasambandi Vestur-Skaftafellssýslu hlutu Fyrirmyndarbikarinn eftirsótta á Unglingalandsmóti UMFÍ sem lauk á Sauðárkróki í gærkvöldi. Þetta er í annað árið í röð sem Fyrirmyndarbikarinn fer til USVS.
Erla Þórey Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri USVS, tók við bikarnum ásamt fjölda gesta frá sambandinu.
Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, afhenti Fyrirmyndarbikarinn og sagði það hafa verið erfitt að gera upp á milli íþróttahéraða.
„Það sem stóð uppúr er samræmt yfirbragð við inngöngu á setningarhátíð, góð hegðun í keppni bæði hjá þátttakendum og stuðningsmönnum og samheldni á tjaldsvæði,“ sagði hann.
Þátttakendur USVS sýndu af sér fádæma prúðmennsku og voru til fyrirmyndar í einu og öllu á mótinu. Þeir voru í treyjum sem voru vel merktar USVS og sýndu merkið stoltir. Ekki var hjá því komist hvaðan þátttakendurnir voru.
Rúmlega þúsund þátttakendur á aldrinum 11 til 18 ára kepptu í fjölda greina í blíðsskaparveðri á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina og er talið að á bilinu 4.000 til 5.000 manns hafi mætt í bæinn til að taka þátt í mótinu.
Mótsslitin í gærkvöldi voru glæsileg. Í fyrsta sinn var brekkusöngur en þar komu fram Magni, félagarnir Jón Arnór og Baldur og Guðrún Árný, sem fékk alla brekkuna til að syngja með sér. Unglingalandsmótinu var svo slitið með flugeldasýningu.