Besti leikmaður Iceland Express-deildar kvenna í vetur, Jaleesa Butler, dró vagninn fyrir Hamar í kvöld með 34 stig og 11 fráköst. Framlag hennar dugði þó ekki til sigurs.
„Auðvitað er ég vonsvikin, það vill enginn tapa og bæði lið voru mætt hér í kvöld til að vinna. Þær skoruðu meira en við í kvöld og þetta er sárt tap en við munum komast yfir það,” sagði Jaleesa og bætti við að leikir tvö og fjögur hafi vegið þungt í þessu einvígi. Hamar tapaði þeim báðum á útivelli.
„Þegar maður horfir á einvígið í heild sinni þá eru það útileikirnir í Njarðvík sem koma í bakið á okkur í kvöld. Uppleggið hjá Ágústi þjálfara var gott fyrir leikinn í kvöld en Njarðvík hitti vel og refsaði okkur þegar við gerðum mistök.”
Jaleesa horfir nú út fyrir landsteinana og ætlar að finna sér lið til að spila með í sumar. Hún segist þó vera meira en til í að koma aftur til Íslands næsta vetur ef henni býðst það. Hún var verðlaunuð sem besti leikmaður deildarinnar í fyrri hluta deildarkeppninnar en hún hefur verið frábær í allan vetur. Hún gefur þó lítið fyrir þetta hrós.
„Það skiptir mig litlu máli. Þetta er liðsíþrótt og á meðan liðið nær ekki árangri þá telur það lítið fyrir mig sjálfa,” sagði Jaleesa að lokum.