Útlitið er ekki bjart hjá Þórsurum sem töpuðu aftur gegn Tindastóli í 8-liða úrslitum Domino’s-deildar karla í leik tvö í Þorlákshöfn í kvöld, 85-96.
Tindastóll komst í 3-11 í upphafi leiks en Þór jafnaði 15-15 og staðan var 18-18 að loknum 1. leikhluta. Gestirnir komust yfir aftur í upphafi 2. leikhluta og juku forskotið jafnt og þétt fram að hálfleik, 33-46.
Þórsarar voru ekki með í upphafi síðari hálfleiks og þegar sex og hálf mínúta var liðin var munurinn orðinn 24 stig, 45-69. Þá gerðu Þórsarar 29-10 áhlaup og minnkuðu muninn í fimm stig, 74-79, í upphafi fjórða leikhluta.
Það voru hins vegar ekki margir dropar eftir á tanknum hjá Þórsurum eftir þessa frábæru rispu. Stólarnir héldu Þórsurum mátulega langt frá sér og á síðustu þremur mínútunum röðuðu gestirnir niður vítaskotunum á meðan ekkert gekk hjá Þórsurum í sóknarleiknum.
Lokatölur urðu 85-96 og Þórsarar 2-0 undir í einvíginu. Næsti leikur liðanna er á Sauðárkróki næstkomandi föstudag. Ef Þórsarar sigra í þeim leik verður fjórða rimma liðanna í Þorlákshöfn næstkomandi mánudagskvöld.
Darrin Govens skoraði 25 stig fyrir Þór, Grétar Ingi Erlendsson 19, Tómas Tómasson 17, Emil Einarsson 10, Nemanja Sovic 7, Baldur Ragnarsson 6 og Oddur Ólafsson 1.