Knattspyrnufélag Rangæinga lék sinn síðasta leik í C-deild Lengjubikars karla í kvöld þegar liðið tapaði fyrir KFG í Garðabæ, 4-3.
Heimamenn byrjuðu betur og leiddu 2-0 í leikhléi. Rangæingar gátu ekki teflt fram sínu sterkasta liði vegna forfalla og m.a. vantaði þá markaskorarann Reyni Björgvinsson, Lárus Viðar á miðjuna og Jóhann Gunnar Böðvarsson sem tók út leikbann.
Elimar Hauksson minnkaði muninn í 2-1 með fyrsta marki seinni hálfleiks en heimamenn svöruðu fyrir sig og komust í 3-1. Þá kom góður kafli Rangæinga og Tómas Steindórsson og Guðbergur Baldursson skoruðu báðir og breyttu stöðunni í 3-3.
Allt virtist stefna í jafntefli þar til á 88. mínútu að KFR fékk á sig vítaspyrnu þar sem markvörðurinn Maciej Majewski átti að hafa brotið af sér. Rangæingar voru ekki sáttir við dóminn og skal engan undra því erfitt var að sjá á hvað dómarinn var að dæma.
KFG skoraði úr spyrnunni og fór með sigur af hólmi.
KFR lauk keppni í riðlinum á botninum, án stiga.