Ungmennafélögin Samhygð og Vaka héldu 72. íþróttamót sitt á íþróttavellinum við Þjórsárver sl. laugardag.
Jón M. Ívarsson skrifar frá Þjórsárveri:
Mikil hefð ríkir fyrir þessu móti sem aldrei hefur fallið niður allt frá upphafinu árið 1939. Keppt var í sjö íþróttagreinum karla og kvenna og sumir sem þarna voru hafa keppt í áratugi fyrir sitt félag.
Vökumenn voru sigursælir enda með þrjá karla úr landsliði Skarphéðins innan sinna raða. Það voru þeir Haraldur Einarsson, Bjarni Már Ólafsson og Rúnar Hjálmarsson sem röðuðu sér í þrjú efstu sætin í flestum greinum. Lið Samhygðar var fámennt enda söknuðu þeir sinna bestu manna eins og hlaupagarpsins Kristins Þórs Kristinssonar sem hefur bætt hlaupamet félagsins stórlega að undanförnu. Formaður félagsins, Stefán Geirsson, var stigahæstur sinna liðsmanna og Halldóra Markúsdóttir var sterkust Samhygðarkvenna.
Veður var hlýtt, sólskin en allsterk gola af austri sem gaf góðan meðvind í hlaupum og stökkum. Völlurinn var mjúkur undir fæti og gaf ekki tilefni til mikils hraða í hlaupunum. Margir keppendur tóku þátt í öllum greinum en þeir voru rúmlega 20 talsins. Góður andi ríkti á mótinu og keppendur hvöttu hver annan, jafnt félaga sína sem keppendur hins liðsins.
Feðgarnir frá Urriðafossi, Einar Haraldsson og Haraldur Einarsson, háðu einvígi í kúluvarpi sem Einar vann þó rétt sé að verða fimmtugur. Bræðurnir frá Vorsabæjarhóli, Markús og Jón M. Ívarssynir voru með að vanda og skokkuðu meðal annars 1500 metrana en báðir voru þeir byrjaðir að hlaupa á mótunum áður en Einar á Urriðafossi fæddist. Samtals hafa þeir Jón og Markús keppt 91 sinni á þessum mótum sem er væntanlega Skarphéðinsmet.
Vaka vann mótið með yfirburðum, hlaut 244 stig gegn 77 stigum Samhygðar. Besta afrek mótsins vann Haraldur Einarsson Vöku með því að stökkva 6,31 m í langstökki sem gaf 674 stig. Besta afrek kvenna átti Ingunn Harpa Bjarkadóttir Vöku með því að hlaupa 100 metra á 14,5 sekúndum. Hún var einnig stigahæst kvenna með 33 stig.
Hörð barátta var um titilinn stigahæsti maður mótsins. Varla mátti sjá á milli Haraldar Einarssonar og Bjarna Más Ólafssonar og munaði aðeins einu stigi í lokin. Haraldur hlaut 35 stig en Bjarni 36 og hlaut því til varðveislu silfurskjöldinn sem er helsti verðlaunagripur mótsins og hefur verið í umferð frá árinu 1943. Er það í fyrsta sinn sem Bjarni vinnur skjöldinn en Haraldur hefur fjórum sinnum verið skjaldarhafi.
Í lokin nutu allir veitinga í Þjórsárveri í boði Samhygðar og þar afhenti Stefán Geirsson keppendum verðlaun sín.