Vala bikarmeistari innanhúss í fyrsta sinn

Valgerður (t.v.) ásamt þeim Önnu Guðrúnu og Ara Emin sem varð í 3. sæti. Ljósmynd/Bogfimisamband Íslands

Valgerður Hjaltested úr BF Boganum í Kópavogi varð bikarmeistari Bogfimisambands Íslands 2025 í keppni með sveigboga en bikarmótaröðinni lauk fyrr í janúar.

Valgerður vann nokkuð öruggan sigur eftir harða keppni, hlaut 1.096 stig en í 2. sæti varð liðsfélagi hennar úr Boganum, Anna Guðrún Yu Þórbergsdóttir, með 1.075 stig.

Þetta er í fyrsta sinn sem Valgerður verður bikarmeistari innanhúss, en hún hefur áður unnið bikarmeistaratitilinn utandyra, árið 2023.

Bikarmótaröðin samanstóð af fimm mótum sem haldin voru mánaðarlega í Bogfimisetrinu frá september til janúar. Þetta er kynlaus keppni og því aðeins einn sem getur staðið uppi sem sigurvegari í hverjum bogaflokki.

Sigurvegari mótaraðarinnar í hverjum bogaflokki vann 50 þúsund króna styrk upp í íþróttalegan kostnað.

Fyrri greinHamar/Þór í undanúrslitin
Næsta greinEva María byrjar árið af krafti