Valgerður gerð að heiðursfélaga FRÍ

Valgerður Auðunsdóttir á Húsatóftum á Skeiðum var gerð að heiðursfélaga Frjálsíþróttasambands Íslands á 61. þingi sambandsins sem haldið var í Kópavogi á dögunum.

Valgerður vann á sínum tíma stórvirki í forystusveit HSK og átti stóran þátt í þeirri miklu uppsveiflu sem varð á sambandssvæðinu. Margar kynslóðir frjálsíþróttamanna eiga Valgerði mikið að þakka fyrir sín óeigingjörnu störf. Valgerður hefur ætíð látið sér annt um málefni FRÍ og framgang frjálsíþrótta og farið víða sem sjálfboðaliði í frjálsíþróttum.

Fleirieinstaklingar af sambandssvæði HSK voru heiðraðir en þau Guðbjörg Viðarsdótitr, Ingvar Garðarsson og Ólafur Elí Magnússon voru öll sæmd sæmd eirmerki FRÍ.

Á þinginu var kjörin ný stjórn og formenn nefnda sambandsins. Formaður sambandsins Freyr Ólafsson frá Stóru-Hildisey var endurkjörinn til næstu tveggja ára. Fjóla Signý Hannesdóttir úr Umf. Selfoss var kjörin ný inn í stjórn sambandsins og þá var Helgi S. Haraldsson endurkjörinn í varastjórn FRÍ.

Af þingtillögum sem voru samþykktar má nefna nýja reglugerð um götuhlaup sem ramma mun betur inn framkvæmd götuhlaupa en verið hefur sem og lagabreytingu sem veitir stjórn FRÍ heimild til að gefa út nýjar reglugerðir sem til þessa hefur aðeins verið gert á Frjálsíþróttaþingum, á tveggja ára fresti.

Fyrri greinÁrni leiðir Flóalistann áfram
Næsta greinFjögur HSK met sett í Flóahlaupinu