Valgerður fær alþjóðleg þjálfararéttindi

Valgerður Einarsdóttir Hjaltested. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Valgerður E. Hjaltested frá Hæli í Hreppum heldur áfram að gera það gott í bogfimiheiminum en um síðustu helgi stóðst hún próf sem veitir henni alþjóðleg þjálfararéttindi, eftir vikulangt námskeið.

Valgerður stóðst prófið með glæsibrag, endanleg einkunn var 19 af 20 sem samsvarar 9,5 í einkunn. Námskeiðið var haldið í Bogfimisetrinu í Reykjavík á vegum Alþjóða bogfimisambandsins, Bogfimisambands Íslands og Ólympíusamhjálparinnar.

Valgerður er starfsmaður Bogfimisambands Íslands og sá um skipulag þjálfaranámskeiðsins ásamt Guðmundi Erni Guðjónssyni íþróttastjóra. Ellefu manns tóku þátt í námskeiðinu og vakti athygli að meirihluti þeirra, eða sex þátttakendur, voru konur.

Eins og sunnlenska.is greindi frá vann Valgerður bronsverðlaun á Norðurlandameistaramóti ungmenna á dögunum en um helgina heldur hún út til Bretlands til þess að taka þátt í Evrópumeistaramóti ungmenna, sem haldið verður í Lilleshall 14.-21. ágúst.

Fyrri greinGramsað í gömlum nótum í Bókakaffinu
Næsta greinSjálfstætt starfandi timburmaður