Í lok ágúst hlaut Valgerður Einarsdóttir Hjaltested frá Hæli í Hreppum styrk frá Ólympíusamhjálpinni til að stunda þjálfaranám á vegum Alþjóða bogfimisambandsins.
Fer námið fram í Lausanne í Sviss og stendur yfir í sex vikur þar sem allur kostnaður verður greiddur. Þetta er frábært tækifæri fyrir Valgerði og mikil viðurkenning fyrir Bogfimisamband Íslands.
Ólympíusamhjálpin getur styrkt einn til tvo þjálfara frá hverju landi á ári og þarf þjálfarinn að vera tilnefndur af ólympísku sérsambandi og hafa sótt sér þjálfaramenntun, annað hvort í heimalandinu eða hjá viðeigandi alþjóðasambandi.
Valgerður keppir fyrir BF Bogann í Kópavogi en eitt af skilyrðum fyrir styrknum er að þjálfarinn sé virkur í sinni íþróttagrein og hafa praktíska reynslu og metnað til að vinna að þjálfaramenntun og þróun íþróttagreinarinnar.