Valgerður Einarsdóttir Hjaltested frá Hæli í Skeiða- og Gnúpverjahreppi átti frábært innandyratímabil í bogfiminni í vetur og endaði í 18. sæti á World Series Open innandyra heimslista Alþjóða bogfimisambandsins, World Archery.
World Series Open innandyra mótaröð Alþjóða bogfimisambandsins samanstóð af 26 mótum um allan heim í vetur, frá byrjun nóvember og til lok febrúar.
Eftir 635 keppendur um allan heim höfðu lokið mótaröðinni í sveigboga í opnum flokki kvenna var Vala í 18. sæti á heimslistanum. Yfir 5.000 keppendur tóku þátt í mótaröðinni í mismunandi keppnisgreinum.
Eins og sunnlenska.is greindi frá á dögunum vann Vala sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil fyrr í mánuðinum og hún hefur unnið öll mót á Íslandi í sveigboga kvenna það sem af er árinu í fullorðins flokki.
Vala er á leið á Evrópubikarmótið í Bretlandi 1.-9. apríl, þar sem einnig verður keppt um þátttökurétt á Evrópuleikana 2023. Hún stefnir einnig á keppni í Slóveníu í maí, áður en kemur að HM utandyra í Berlín og heimsbikarmótinu í París en bæði mótin fara fram í ágúst. Þar að auki mun hún fara sem þjálfari og starfsmaður Bogfimisambands Íslands á Evrópubikarmót ungmenna í Sviss í júní og NM ungmenna í Noregi í júlí.