Valgerður Auðunsdóttir, Umf. Skeiðamanna, var sæmd heiðurskrossi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands á ársþingi Héraðssambandsins Skarphéðins á Laugalandi í kvöld.
Það var Hafsteinn Pálsson, stjórnarmaður í ÍSÍ, sem afhenti Valgerði viðurkenninguna en framkvæmdastjórn ÍSÍ samþykkti á fundi sínum að veita Valgerði þessari viðurkenningu fyrir áralöng störf í þágu íþróttahreyfingarinnar.
Heiðurskross ÍSÍ er æðsta heiðurmerki sem Íþrótta- og Ólympíusambandið veitir en Valgerður er áttundi félagsmaðurinn á sambandssvæði Skarphéðins sem hlýtur þessa viðurkenningu.
Guðmunda Ólafsdóttir, Umf. Þjótanda, fékk einnig viðurkenningu frá ÍSÍ en hún var sæmd silfurmerki sambandsins. Guðmunda hefur verið öflugur félagsmaður í íþróttahreyfingunni um árabil, bæði hjá Umf. Vöku og Umf. Þjótanda en hún var einn af hvatamönnunum að stofnun nýja sameinaða félagisns í Flóahreppi.