Valgerður tvöfaldur Íslandsmeistari í bogfimi

Valgerður Hjaltested. Ljósmynd/Bogfimisamband Íslands

Valgerður E. Hjaltested, bogfimikona í Þorlákshöfn, vann um helgina fimmta Íslandsmeistaratitilinn í röð á Íslandsmótinu í sveigboga innanhúss. Vala vann einnig þriðja Íslandsmeistaratitilinn í röð í félagsliðakeppninni með BF Boganum í Kópavogi.

Vala jafnaði þar með lengstu sigurröð sveigbogakvenna sem Marín Aníta Hilmarsdóttir átti fyrir. Þær tvær eru á meðal sterkustu keppenda landsins í sveigboga og eins og oft áður mættust þær í úrslitaviðureigninni í gær. Leikurinn var æsispennandi og staðan jöfn 4-4 þegar fimmta og síðasta lota leiksins hófst.

Þar sýndi Vala ótrúlega fimi og tók fullkomna lotu með 10-10-10, 30 stig á móti 26 stigum frá Marín. Vala fagnaði því þriðja Íslandsmeistaratitlinum innanhúss í röð en hún er sömuleiðis Íslandsmeistari utanhúss síðustu tvö ár.

Valgerður í miðið með gullverðlaunin um hálsinn. Ljósmynd/Bogfimisamband Íslands

Í félagsliðakeppni skipuðu þær Valgerður og Marín lið BF Bogans ásamt Ragnari Þór Hafsteinssyni. Þau léku til úrslita gegn ÍF Akri og sigruðu nokkuð örugglega, 5-1.

Í keppni um titilinn óháð kyni átti Vala Íslandsmeistaratitil að verja en þar tapaði hún naumlega í undanúrslitunum og fór því í bronsleikinn þar sem hún mætti Ragnari Þór liðsfélaga sínum í gífurlega jöfnum leik sem endaði í jafntefli 5-5 eftir fimm lotur. Í bráðabananum fengu þau bæði fullkomið skor en ör Ragnars var 6,5 millimetrum nær miðju og hann því lýstur sigurvegari leiksins og tók bronsið.

Fyrri greinVeglegur matarmarkaður á Hótel Selfossi
Næsta greinVegleg gjöf frá kvenfélögunum til Hveragerðisbæjar