Arnar Snær Hákonarson, GR, bætti vallarmetið á Kiðjabergsvelli í dag á fyrsta hring Securitas-mótsins í golfi. Mótið er fimmta og næstsíðasta mótið á Eimskipsmótaröðinni.
Arnar Snær lék hringinn á 66 höggum eða fimm höggum undir pari og bætti vallarmet þeirra Örvars Samúelssonar, GA og Birgis Leifs Hafþórssonar, GKG, sem var 68 högg. Arnar Snær fékk fimm fugla og þrettán pör á hringnum.
Hlynur Geir Hjartarson, Golfklúbbi Selfoss, er í 7.-9. sæti eftir fyrsta hring, einu höggi yfir pari. Hlynur er í öðru sæti stigalistans fyrir mótið, en Haraldur Franklín Magnús, efsti maður stigalistans, er ekki með í mótinu.
Sigurþór Jónsson, Golfklúbbi Selfoss, lék vel í dag og er í 4.-5. sæti á einu höggi undir pari.
Guðjón Baldur Gunnarsson, Golfklúbbi Kiðjabergs, er í 17.-19. sæti á fimm höggum yfir pari og Andri Már Óskarsson, Golfklúbbnum Hellu, er í 24.-26. sæti á átta höggum yfir pari.
Mótinu lýkur á sunnudag.